Loading ...
Sorry, an error occurred while loading the content.
 

Eyrbyggja Saga 30 part 3

Expand Messages
 • Fred & Grace Hatton
  Þeir Þórólfur og Úlfar áttu engi saman upp á hálsinn. Þeir slógu fyrst hey mikið hvorirtveggju. Síðan þurrkuðu þeir og færðu í stórsæti.
  Message 1 of 1 , Jul 4, 2013
   Þeir Þórólfur og Úlfar áttu engi saman upp á hálsinn. Þeir slógu fyrst hey
   mikið hvorirtveggju. Síðan þurrkuðu þeir og færðu í stórsæti.
   Það var einn morgun snemma að Þórólfur stóð upp. Sá hann þá út. Var veður
   þykkt og hugði hann að glepjast mundi þerririnn. Bað hann þræla sína upp
   standa og aka saman heyi og bað þá að vinna sem mest um daginn "því að mér
   sýnist veður eigi trúlegt."
   Þrælarnir klæddust og fóru til heyverks en Þórólfur hlóð heyinu og eggjaði á
   fast um verkið að sem mest gengi fram.
   Þenna morgun sá Úlfar út snemma og er hann kom inn spurðu verkmenn að veðri.
   Hann bað þá sofa í náðum "veður er gott," sagði hann, "og mun skína af í
   dag. Skuluð þér slá í töðu í dag en vér munum annan dag hirða hey vort, það
   er vér eigum upp á hálsinn."
   Fór svo um veðrið sem hann sagði. Og er á leið kveld sendi Úlfar mann upp á
   hálsinn að sjá um andvirki sitt það er þar stóð. Þórólfur lét aka þrennum
   eykjum um daginn og höfðu þeir hirt heyið að nóni það er hann átti. Þá bað
   hann þá aka heyi Úlfars í garð sinn. Þeir gerðu sem hann mælti. En er
   sendimaður Úlfars sá það hljóp hann og sagði Úlfari.
   Úlfar fór upp á hálsinn og var óður mjög og spyr hví Þórólfur rændi sig.
   Þórólfur kvaðst eigi hirða hvað hann sagði og var málóði og illur
   viðureignar og hélt þeim við áhöld. Sá Úlfar þá engan sinn kost annan en
   verða á brottu.
   Fer Úlfar þá til Arnkels og segir honum skaða sinn og bað hann ásjá, lést
   ella allur mundu fyrir borði verða. Arnkell sagðist mundu beiða föður sinn
   bóta fyrir heyið en kvað sér þó þungt hug segja um að nokkuð mundi að sök
   hafa.
   Og er þeir feðgar fundust bað Arnkell föður sinn bæta Úlfari heytökuna en
   Þórólfur kvað þræl þann helsti auðgan. Arnkell bað hann gera fyrir sín orð
   og bæta honum heyið. Þórólfur kveðst ekki gera þar fyrir nema versnaði
   hlutur Úlfars og skildust þeir við það.

   Fred & Grace Hatton
   Hawley, Pa.
  Your message has been successfully submitted and would be delivered to recipients shortly.