Loading ...
Sorry, an error occurred while loading the content.

Eyrbyggja Saga 17 end + 18 part 1

Expand Messages
 • Fred & Grace Hatton
  Illugi þakkaði Snorra goða sína liðveislu og bauð honum fyrir fé en hann kveðst eigi vildu laun fyrir hina fyrstu liðveislu. Þá bauð Illugi honum
  Message 1 of 1 , Oct 24, 2012
  • 0 Attachment
   Illugi þakkaði Snorra goða sína liðveislu og bauð honum fyrir fé en hann
   kveðst eigi vildu laun fyrir hina fyrstu liðveislu. Þá bauð Illugi honum
   heim með sér og það þá Snorri og fékk hann þá góðar gjafir. Voru þeir Snorri
   og Illugi þá vinir um hríð.

   18. kafli
   Þetta sumar andaðist Þorgrímur Kjallaksson en Vermundur mjóvi sonur hans tók
   þá við búi í Bjarnarhöfn. Hann var vitur maður og stundar heilráður.
   Styr hafði þá og búið um hríð undir Hrauni inn frá Bjarnarhöfn. Hann var
   vitur maður og harðfengur. Hann átti Þorbjörgu, dóttur Þorsteins hreggnasa.
   Þorsteinn og Hallur voru synir þeirra. Ásdís hét dóttir þeirra, drengileg
   kona og heldur skapstór. Styr var héraðríkur og hafði fjölmennt mjög. Hann
   átti sökótt við marga menn því að hann vó mörg víg en bætti engi.
   Þetta sumar kom út skip í Salteyrarósi og áttu hálft norrænir menn. Hét
   Björn stýrimaður þeirra. Hann fór til vistar á Eyri til Steinþórs. Hálft
   skipið áttu suðureyskir menn og hét Álfgeir stýrimaður þeirra. Hann fór til
   vistar í Mávahlíð til Þórarins svarta og félagi hans með honum er Nagli hét,
   mikill maður og fóthvatur. Hann var skoskur að kyni.
   Þórarinn átti víghest góðan á fjalli. Þorbjörn digri átti og stóðhross mörg
   saman er hann lét standa í fjallhögum og valdi af hross um haustum til
   sláturs.
   Þetta haust gerðist það til tíðinda að eigi fundust hross Þorbjarnar og var
   víða leitað en haustið var heldur veðurhart.
   Í öndverðan vetur sendi Þorbjörn Odd Kötluson suður um heiði undir Hraun.
   Þar bjó sá maður er Spá-Gils hét. Hann var framsýnn og eftirrýningamaður
   mikill um stuldi eða þá hluti aðra er hann vildi forvitnast.
   Oddur spyr hvort hrossum Þorbjarnar höfðu stolið útlendir menn eða
   utanhéraðsmenn eða nábúar hans.
   Spá-Gils svarar: "Segðu svo Þorbirni sem eg mæli að eg hygg að hross hans
   muni eigi langt gengin úr högum þeirra en vant er á menn að kveða og er
   betra að missa síns en stór vandræði hljótist af."

   Fred & Grace Hatton
   Hawley, Pa.
  Your message has been successfully submitted and would be delivered to recipients shortly.