Loading ...
Sorry, an error occurred while loading the content.

13145Laxdaela Saga 78 part 2

Expand Messages
 • Fred & Grace Hatton
  Nov 25, 2013
  • 0 Attachment
   Herdís Bolladóttir óx upp að Helgafelli og var hún allra kvenna vænst.
   Hennar bað Ormur son Hermundar Illugasonar og var hún gefin honum. Þeirra
   son var Koðrán er átti Guðrúnu Sigmundardóttur. Sonur Koðráns var Hermundur
   er átti Úlfeiði dóttur Runólfs Ketilssonar biskups. Þeirra synir voru Ketill
   er ábóti var að Helgafelli og Hreinn og Koðrán og Styrmir. Dóttir þeirra var
   Þórvör er átti Skeggi Brandsson og er þaðan komið Skógverjakyn.
   Óspakur hét son Bolla og Þórdísar. Dóttir Óspaks var Guðrún er átti Þórarinn
   Brandsson. Þeirra son var Brandur er setti stað að Húsafelli. Hans son var
   Sighvatur prestur er þar bjó lengi.
   Gellir Þorkelsson kvongaðist. Hann fékk Valgerðar dóttur Þorgils Arasonar af
   Reykjanesi. Gellir fór utan og var með Magnúsi konungi hinum góða og þá af
   honum tólf aura gulls og mikið fé annað. Synir Gellis voru þeir Þorkell og
   Þorgils. Sonur Þorgils var Ari hinn fróði. Son Ara hét Þorgils. Hans son var
   Ari hinn sterki.
   Nú tekur Guðrún mjög að eldast og lifði við slíka harma sem nú var frá sagt
   um hríð. Hún var fyrst nunna á Íslandi og einsetukona. Er það og almæli að
   Guðrún hafi verið göfgust jafnborinna kvenna hér á landi.
   Frá því er sagt eitthvert sinn að Bolli kom til Helgafells því að Guðrúnu
   þótti ávallt gott er hann kom að finna hana. Bolli sat hjá móður sinni
   löngum og varð þeim margt talað.
   Þá mælti Bolli: "Muntu segja mér það móðir að mér er forvitni á að vita?
   Hverjum hefir þú manni mest unnt?"
   Guðrún svarar: "Þorkell var maður ríkastur og höfðingi mestur en engi var
   maður gervilegri en Bolli og albetur að sér. Þórður Ingunnarson var maður
   þeirra vitrastur og lagamaður mestur. Þorvalds get eg að engu."
   Þá segir Bolli: "Skil eg þetta gerla hvað þú segir mér frá því hversu
   hverjum var farið bænda þinna en hitt verður enn ekki sagt hverjum þú unnir
   mest. Þarftu nú ekki að leyna því lengur."

   Grace Hatton
   Hawley, PA